Fermingarfræðsla Íslensku kirkjunnar í Svíþjóð
Íslenska kirkjustarfið í Svíþjóð býður upp á fermingarfræðslu nú sem fyrr. Þátttakendur geta komið af öllu landinu. Við reynum að brúa fjarlægðir með því að hittast á fermingarmótum, boðið er upp á fræðslusamverur og auk þess notum við símtöl og tölvupóst til að vera í tengslum.
Skráning í fermingarfræðslu fyrir næsta vetur er til 1. september. Áhugasamir eru beðnir að senda póst á kirkjan@telia.com til að fá fyllri upplýsingar og/eða fá skráningarblað sent til baka.
Fermingarmót í september
Fermingarundirbúningurinn hefst með fermingarmóti á Åh Stiftgård helgina 20. til 22. sept. 2024. Hópurinn hittist á brautarstöðinni í Gautaborg á föstudegi. Við förum með rútu til Åh stiftgård sem er 70 km fyrir norðan Gautaborg. Komum aftur til Gautaborgar um hádegi á sunnudegi og þaðan taka allir lest eða rútu heim.
Á fermingarmótinu gefst tækifæri til að kynnast og byrja fræðsluna af krafti. Á mótinu samtvinnum við nám, leik og skemmtilega samveru. Við reiknum með um 45 unglingum í fermingarfræðslu á mótið. Síðan eru um 15 ungleiðtogar á mótinu og 10 fullorðnir til að hafa umsjón með dagskránni. Íslenskir unglingar í fermingarfræðslu frá Svíþjóð, Noregi og Danmörku hittast á þessu móti.
Fræðsla og kirkjusókn í vetur
Fræðslan heldur áfram eftir fermingarmótið með því að unglingarnir sækja guðsþjónustur í heimabyggð og skila verkefnum með tölvupósti. Fræðslufundir eru í tengslum við íslenskar guðsþjónustur. Einnig er boðið upp á símakennslutíma fyrir þá sem ekki komast í kennslustundir tengdar íslensku helgihaldi.
Fermingarmót í maí 2025
Að vori hittist hópurinn að nýju á sama stað, vormótið er ráðgert 9. til 11. maí 2025.
Fermingardagar
Það er valfrjálst hvort fermingin fari fram í Svíþjóð eða á Íslandi. Fermingarguðsþjónustur eru yfirleitt í maímánuði hér Svíþjóð.
Unglingarnir geta fengið leyfi til að fermast fyrr eða í kringum páska 2025 á Íslandi þó fermingarfræðslu sé ekki lokið hér hjá okkur, en skuldbinda sig þá til að koma á seinna fermingarmótið og ljúka kennsluprógramminu.
Skráning stendur yfir eða til 1 september.
Þeir sem vilja vera með í fermingarfræðslu næsta vetur þurfa að skrá sig sem fyrst eða fyrir 10. ágúst. Vinsamlegast hafið samband á kirkjan@telia.com og biðjið um skráningarblað, einnig er velkomið að leita frekari upplýsinga hjá undirrituðum í síma 070 286 39 69.
Bestu kveðjur, Ágúst Einarsson, prestur Íslendinga í Svíþjóð.