Aðventukveðja

Kæru vinir

Enn sem fyrr er samkomubann og því er ekki möguleiki á barnastarfi og aðventuhátíð um næstu helgi eins og fyrirhugað var.

Nú fer í hönd aðventa og undirbúningur jóla sem við hvert og eitt verðum að hugsa og skipuleggja öðruvísi en við erum vön. Það kann að skapa hindranir … en einnig gefa nýja spennandi möguleika þegar við þurfum að leita nýrra leiða í undirbúningi hátíðar.

Mikið er um að kirkjustarfið á Íslandi setji hluta af dagskrá sinni inn á netið og á aðventu munum við í þessum kirkjupósti benda á vefslóðir með góðu efni í aðdraganda jólahátíðar. 

Pössum upp á hvert annað og gætum að náunganum. 

Með kærleikskveðju,

Prestur og sóknarnefnd íslensku kirkjunnar í Svíþjóð.

Á aðventu

  1. Í skammdegismyrkri 

þá skuggar lengjast

er skinið frá birtunni næst 

ber við himininn hæst.

2. Hans fótatak nálgast 

þú finnur blæinn 

af frelsarans helgiró – 

hann veitir þér vansælum fró.

3. Við dyrastaf hljóður 

hann dvelur – og sjá 

þá dagar í myrkum rann 

hann erindi á við hvern mann.

4. Þinn hugur kyrrist 

þitt hjarta skynjar

að hógværðin býr honum stað 

þar sest hann sjálfur að.

5. Og jólin verða 

í vitund þinni 

að vermandi kærleiks yl 

sem berðu bölheima til.

Höf. Steingerður Guðmundsdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *