Barnastarf í Gautaborg á laugardag

Kirkjuskóli og fjölskyldusamvera verður í safnaðarheimili V-Frölundakirkju laugardaginn 24. september kl. 11.00. Söngur, fræðsla, leikur, brúðuleikhús og góð samvera yngri sem eldri. Rebbi fær nýjan gest og kynnist Vöku, skjaldböku.  Öll börn ásamt foreldrum innilega velkomin. Hressing, kaffi og spjall. Gengið inn að neðanverðu, skiltið „barn och ungdom“ vísar á innganginn.

Aðrar fjölskyldusamverur verða:

Laugardaginn 15 október kl. 11.00

Laugardaginn 29 október kl. 11.00

Laugardaginn 12 nóvember kl. 11.00

Laugardaginn 26 nóvember kl. 11.00

Fréttir af starfi:

Við hófum vetrarstarfið með Sýningunni “Lítil saga úr orgelhúsi” í umsjá góðra gesta frá Íslandi og með styrk frá svensk – isländska samarbetsfonden. Um 50 manns sóttu sýninguna sem var afar vel tekið.

Sýningin Lítil saga úr orgelhúsi er myndskreytt tónlistarævintýri fyrir börn á aldrinum 5 – 10 ára. Á sýningunni er sagan lesin og myndum varpað á skjá um leið og tónlistin sem fylgir sögunni er leikin á orgel. Ævintýrið leiðir hlustandann inn í töfraheim pípuorgelsins á skemmtilegan hátt. Söguna gerði Guðný Einarsdóttir, organisti en tónlistina samdi Michael Jón Clarke, tónskáld. Sagan fjallar um orgelpípurnar sem búa í orgelhúsinu. Það gengur á ýmsu í samskiptum hjá orgelpípunum og Sif litla sem er langminnst, er orðin mjög þreytt á þessu eilífa rifrildi. Hún ákveður að fara í burtu úr orgelhúsinu og finna sér betri stað að búa á. Þá reynir nú heldur betur á hinar orgelpípurnar og þær fara að leita að Sif litlu.

Sögumaður var Bergþór Pálsson, söngvari, Guðný Einarsdóttir lék á orgelið og myndskreytingar gerði Fanney Ósk Sizemore.

Sýningin hefur einnig verið útgefin sem barnabók með Cd diski.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *